Stofnskrá Talíu - Loftbrú Reykjavíkur
1. gr.
Tilgangur sjóðsins Talía, loftbrú Reykjavíkur, er alþjóðlegur tengslasjóður fyrir listamenn Félags íslenskra leikara (FÍL), Félags leikstjóra á Íslandi ( FLÍ) og Félags leikskálda og handritshöfunda ( FLH). Sjóðurinn er stofnaður til þess að styðja við bakið á framsæknum leikurum, dönsurum, söngvurum, leikmynda- og búningahöfundum, leikstjórum og leikskáldum sem hefur verið boðið að sýna list sína á erlendri grund. Í tengslum við listviðburðinn verður Reykjavíkurborg kynnt sem nútímaleg og eftirsóknarverð menningarborg.
2. gr.
Markmið styrkveitinga Stofnun sjóðsins er liður í því að gera Reykjavíkurborg að vettvangi alþjóðlegra listastrauma og að liðka fyrir samskiptum leikara, dansara, söngvara, leikmynda- og búningahöfunda, leikstjóra og leikskálda milli Reykjavíkur og umheimsins. Sjóðurinn er ætlaður sjálfstætt starfandi sviðslistamönnum.
3. gr.
Stofnendur og framlög Stofnendur sjóðsins eru Reykjavíkurborg, Glitnir, Icelandair, Félag íslenskra leikara, Félag leikstjóra á Íslandi og Félag leikskálda og handritshöfunda. Menningar- og ferðamálaráð, fyrir hönd Reykjavíkurborgar, skuldbindur sig til að leggja fram árlega kr. 1.000.000,. Glitnir skuldbindur sig til að leggja fram árlega kr. 1.000.000,-. Icelandair skuldbindur sig til að leggja fram árlega afslátt af farmiðum að verðmæti lágmark kr. 1.000.000,- auk verulegra hlunninda sem felast í umfram farangri og skulu afslættir taka mið af fyrirkomulagi Reykjavíkur Loftbrúar. FÍL skuldbindur sig til að leggja fram árlega kr. 200.000,-. Félag leikstjóra á Íslandi skuldbindur sig til að leggja fram árlega kr. 75.000.- Félag leikskálda og handritshöfunda skuldbindur sig til að leggja fram árlega kr. 75.000.- Einnig skulu tvö síðast nefndu félögin fái til liðs við Talíu Loftbrú tvo nýja samstarfsaðila sem hvor um sig leggi fram kr. 300.000 árlega í tvö ár ( 2007 og 2008 ) Samstarfssamningur þessara aðila skal endurskoðaður árlega. Skal sú endurskoðun fara fram í febrúar ár hvert og lokið fyrir 1. mars ár hvert.
4. gr.
Sjóðsstjórn Í stjórn sjóðsins sitja fimm fulltrúar, einn tilnefndur af Reykjavíkurborg, einn tilnefndur af Glitni, einn tilnefndur af Icelandair og tveir tilnefndir af FÍL. Félag leikstjóra á Íslandi og Félag leikskálda og handritshöfunda eiga hvort um sig einn áheyrnarfulltrúa. Sömu aðilar skipa sjö menn til vara. Fulltrúi Reykjavíkurborgar skal gegna formennsku. Hæfisreglur sveitarstjórnarlaga gilda um stjórnarmenn. Sjóðsstjórn fjallar um innkomnar umsóknir á þriggja mánaða fresti og setur sér verklagsreglur þar að lútandi. Ekki er heimilt að taka umsóknir til afgreiðslu á milli funda.
5. gr.
Skilyrði styrkveitinga og skuldbinding styrkþega Til að geta fengið úthlutun úr sjóðnum þarf umsækjandi að vera fullgildur félagi í einhverju áðurnefndra félaga og leggja fram tilskilin gögn er staðfesti væntanlega þátttöku í listviðburði, sem útheimtir tímabundna dvöl erlendis. Stjórn sjóðsins setur nánari reglur um skilyrði styrkveitinga og úthlutun styrkja. Úthlutun er í formi verkefnastyrkja, farmiða og yfirvigtar. Styrkþegar undirgangast skuldbindingar gagnvart sjóðnum samkvæmt sérstökum samningi. Þar verði m.a. kveðið á um að styrkþegar skili stuttri greinargerð um notkun styrksins.
6. gr.
Starfstími, varðveisla og rekstur Sjóðurinn er tilraunaverkefni til þriggja ára. Starfsárið hefst í apríl árið 2006 eftir undirritun stofnskrár og síðan taka við árin 2007 og 2008. Sjóðurinn skal vistaður hjá Félagi íslenskra leikara, sem varðveitir jafnframt gerðarbók hans og gögn. Rekstur sjóðsins skal greiddur af eigin fé samkvæmt nánari ákvörðun stjórnar. Eftir hvert starfsár sjóðsins skal grein gerð fyrir starfsemi sjóðsins með ársskýrslu sem leggja skal fyrir fulltrúa stofnenda. Opnaður skal reikningur hjá Glitni Lækjargötuútibúi sem á samningstímanum geymir eignir sjóðsins.
__________________________
f.h. menningar- og ferðamálaráðs Reykjavíkurborgar
_______________________________
Randver Þorláksson f.h. Félags íslenskra leikara
____________________________________
f.h. Icelandair
________________________________________
Hannes Guðmundsson f.h. Glitnis
__________________________________________
Viðar Eggertsson f.h. Félags leikstjóra á Íslandi
________________________________________________
Bjarni Jónsson f.h. Félags leikskálda og handritshöfunda Reykjavík
Maí 2006