Lög félags leikstjóra á Íslandi
Lög félags leikstjóra á Íslandi
1. grein.
Nafn félagsins er Félag leikstjóra á Íslandi (FLÍ) og heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.
2. grein.
Tilgangur félagsins er að standa vörð um hagsmuni leikstjóra, þ.m.t. dramatúrga og sviðshöfunda, listrænt sem og félagslega. Það er samningsaðili leikstjóra gagnvart leikhúsum, hljóðvarpi, sjónvarpi og öðrum þeim, sem ráða leikstjóra til starfa. Það kemur fram fyrir hönd leikstjóra í öllum hagsmunamálum þeirra.
3. grein.
Félagið skal standa vörð um höfunda- og hugverkarétt leikstjóra í samræmi við lög og reglur um slík réttindi.
4. grein.
Félagið gerir sér far um samvinnu við önnur félög sviðslistafólks á Íslandi og hliðstæð félög leikstjóra á Norðurlöndum og annars staðar með það að markmiði að auka veg sviðslista og efla faglega samstöðu og samræðu.
5. grein.
Umsókn um félagsaðild skal vera skrifleg. Til þess að verða fullgildur félagi þarf umsækjandi að hafa lokið a.m.k. 3ja ára leikstjórnar-/sviðslistanámi á háskólastigi. Heimilt er að veita félagsaðild þeim sem lokið hefur meistaranámi í sviðslistum hafi viðkomandi bakkalárgráðu í öðru fagi. Uppfylli umsækjandi ekki menntunarskilyrði má meta starfsreynslu til jafns við menntun ef umsækjandi uppfyllir skilyrði um starfsreynslu sem nemi 24 punktum, skv. eftirfarandi skilgreiningu:
a) 2 sviðsetningar í atvinnuleikhúsi: 24 punktar
b) 60 mínútur af leiknu efni í sjónvarpi eða kvikmynd: 24 punktar
c) 8 uppfærslur í hljóðvarpi: 24 punktar
d) 6 sviðsetningar í áhugaleikhúsi: 24 punktar
e) 4 annir leiktúlkunarkennslu við viðurkenndan háskóla: 24 punktar
Umsækjandi telst félagi þegar stjórn hefur metið umsókn hans fullgilda. Tilkynna skal um nýja félaga á aðalfundi.
6. grein.
Listnemar sem stunda viðurkennt háskólanám í leikstjórn eða sviðslistanám sem lítur að leikstjórn geta sótt um nemaaðild að FLÍ. Nemar greiða ekki félagsgjöld og eru ekki fullgildir félagsmenn þ.e. fá ekki félagskort og geta ekki sótt um styrki í menningarsjóð FLÍ, en félaginu er skylt að gæta hagsmuna þeirra á starfssviði félagsins. Þegar námi lýkur þarf nemi að endurnýja umsókn sína til að öðlast full réttndi.
7. grein.
Utanfélagsmaður, sem tekur að sér leikstjórn hjá samningsaðilum FLÍ skal eiga þess kost að verða aukafélagi og njóta þeirra réttinda sem samningar félagsins kveða á um, enda greiði hann samningsbundinn hlut launa sinna til félagsins. Aukafélagi hefur rétt til setu á fundum félagsins með málfrelsi og tillögurétt.
Erlendir leikstjórar sem taka að sér verkefni hér á landi og eru meðlimir í félagi sem FLÍ hefur gert gagnkvæman samning við, skulu njóta fullra félagsréttinda FLÍ án þess að greiða félagsgjöld.
8. grein.
Ef félagi tekur laun undir lágmarkstaxta félagsins, eða vinnur á annan hátt gegn tilgangi og hagsmunum þess, er hægt að víkja honum úr félaginu. Slíkt verður að gerast á almennum félagsfundi og þarf samþykki 2/3 fundarmanna til að brottvísun sé lögleg.
9. grein.
Aðalfundur ákveður lágmarksfélagsgjald sem félagsmenn greiða árlega. Að auki greiðir leikstjóri 1,5% af launum samkvæmt samningum félagsins í félagsgjald. Nýir félagar greiða fyrsta árið hlutfall af lágmarksfélagsgjaldi, frá og með þeim mánuði sem umsókn um félagsaðild er samþykkt. Félagar 67 ára og eldri eru undanþegnir greiðslu lágmarksfélagsgjalds.
10. grein.
Félagsmaður, sem ekki greiðir gjaldfallin félagsgjöld sín fyrir aðalfund telst ekki lengur fullgildur félagi, heldur aukafélagi, en verður fullgildur félagi aftur um leið og hann greiðir gjaldfallna skuld sína.
Félagsmaður, sem tekur verktakagreiðslu hjá samningsbundnum vinnuveitanda, er ábyrgur fyrir því að hann eða samningsaðilinn standi félaginu skil á 1,5% félagsgjaldi og gjaldi í menningarsjóð FLÍ samkvæmt samningum félagsins, reiknað sem hlutfall af upphæð sem samsvarar því að um venjulega launagreiðslu hefði verið að ræða. Óski félagi að ganga úr félaginu skal hann gera það skriflega.
11. grein.
Í stjórn félagsins eiga sæti þrír fulltrúar, formaður, ritari og gjaldkeri, kosnir á aðalfundi skriflega hver fyrir sig; formaður og ritari til eins árs í senn, en gjaldkeri til tveggja ára. Fráfarandi gjaldkeri víkur ekki úr stjórn fyrr en ársreikningum hefur verið lokað og þeir samþykktir af kjörnum skoðunarmönnum reikninga. Þrír eru kosnir til vara til eins árs og kosnir allir í senn. Varamenn skulu alla jafna fá boð um að sitja fundi stjórnar með málfrelsi og tillögurétt . Stjórnin skal annast daglegan rekstur skrifstofu félagsins, bera ábyrgð á eignum þess og sinna almennum stjórnarstörfum.
12. grein.
Aðalfund skal halda einu sinni á ári, fyrir lok maímánaðar . Til aðalfundar skal boðað með a.m.k. þriggja vikna fyrirvara. Aðalfundur telst lögmætur ef löglega er til hans boðað.
13. grein.
Dagskrá aðalfundar skal vera:
a) Fundargerð síðasta aðalfundar.
b) Kynning nýrra félaga.
c) Skýrsla stjórnar.
d) Reikningar síðastliðins árs.
e) Lágmarksfélagsgjald næsta árs ákveðið.
f) Kosning stjórnar og varastjórnar.
g) Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga.
h) Lagabreytingar.
i) Starfsáætlun FLÍ.
j) Nefnda- og fulltrúakosning.
k) Önnur mál.
14. grein.
Félagsfundi skal halda samkvæmt ákvörðun stjórnar. Stjórn ber að kalla saman fundi í félaginu ef minnst 10 félagsmenn óska þess skriflega og tilgreina ástæðu. Fundir skulu boðaðir skriflega með a.m.k. 10 daga fyrirvara. Formaður stjórnar fundum og leggur fyrir þau mál, sem ræða skal. Formanni er þó heimilt að skipa fundarstjóra í sinn stað.
15. grein.
Félagið má ekki ganga úr Bandalagi íslenskra listamanna nema því aðeins að Bandalagið eða meirihluti stjórnar þess taki upp einhverja þá stefnu, sem teljist skaðleg fyrir FLÍ eða brjóti í bága við hagsmuni félagsmanna . Slíka úrsögn verður þó að samþykkja á lögmætum félagsfundi með a.m.k. ¾ hlutum greiddra atkvæða.
16. grein.
Stjórn FLÍ er heimilt að tilnefna heiðursfélaga. Tilnefning hlýtur samþykki, ef aðal- og varastjórn undanþeginn greiðslu lágmarksfélagsgjalds.
17. grein.
Sjóðir félagsins eru: félagssjóður, IHM-sjóður og menningarsjóður, en sérstakar reglugerðir gilda um þessa sjóði, þeim er einungis hægt að breyta á aðalfundi. Bókhald félagsins skal þannig frágengið að hægt sé að átta sig á fjárreiðum hvers sjóðs fyrir sig. Félagssjóði er ætlað að standa undir rekstri félagsins, IHM-sjóður greiðir bætur til leikstjóra fyrir eintakagerð til einkanota skv. 11. gr. höfundalaga og menningarsjóði er ætlað að styrkja félagsmenn til símenntunar og efla listþroska þeirra.
18. grein.
Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi og þarf til þess 2/3 hluta greiddra atkvæða. Breytingatillögur verða að berast stjórn félagsins a.m.k. tveimur vikum fyrir aðalfund og skal stjórn kynna þær félagsmönnum fyrir aðalfund.
19. grein.
Komi fram tillaga um að leggja félagið niður þurfa ¾ félagsmanna að vera á aðalfundi og ¾ félagsmanna að samþykkja tillöguna. Það er háð ákvörðun fundarins hvað gera skuli við eignir félagsins, ef einhverjar eru.
Þannig samþykkt á aðalfundi FLÍ 23. maí 2022.