Eftirfarandi áherslur verða í starfi félagsins á komandi starfsári:
-
Endurnýja samninga við Menningarfélag Akureyrar vegna LA, LR og Þjóðleikhúsið og hefja samninga við Íslensku Óperuna og LHÍ.
-
Starfshópur um tillögur að kröfugerð sem tryggir samhæfð og bætt kjör leikstjóra sem taka að sér aðstoðarleikstjórn haldi áfram vinnu sinni og skili af sér tillögum á starfsárinu.
-
Haldið verði áfram rannsókn á þróun kjara leikstjóra og leitað nauðsynlegrar fagþekkingar við þær rannsóknir. Leitað skal til systrafélaga á norðurlöndum um aðferðir sem þau hafa beitt við slíkar rannsóknir.
-
Félagið leiði gerð samkomulags á milli allra höfundarrétthafa sviðsetninga; leikstjóra, leikskálda, ljósahönnuða, danshöfunda, tónskálda, myndbandshönnuða, leikmyndahöfunda og búningahönnuða um greiðslur vegna afnota af höfundarverki til birtingar í öðrum miðlum en lifandi flutning á sviði.
-
Fylgja skal eftir rannsókn á stöðu kvenna í íslenskum sviðslistum sem LSÍ mun leiða í samstarfi við önnur fagfélög í sviðslistum, stofnanir í skapandi greinum og RIKK (Rannsóknarstofnun í jafnréttisfræðum við HÍ) og Listaháskóla Íslands. Niðurstöður hennar skulu kynntar á málþingi, sem hafi það markmið að skila frekari rannsóknarspurningum um stöðu kvenna í sviðslistum.
-
Gert verði átak á meðal félagsmanna varðandi skil á félagsgjöldum til BHM, sem tryggja mun félögum FLÍ réttindi í sjóðum BHM, til dæmis vegna endurmenntunar og starfsþróunar auk réttinda í sjúkrasjóði og orlofssjóði.
-
Kanna skal með hvaða hætti er hægt að auka og kynna starfsmöguleika leikstjóra erlendis fyrir félögum FLÍ.
-
Kannaður verði formlega vilji annara fagfélaga í sviðslistum um sameiningu í eitt stéttar- og fagfélag sem rekur sameiginlega hagsmunabaráttu.
-
Vinna við þróun og uppsetningu heimasíðu FLÍ verði kláruð.
Lagt fram á aðalfundi FLÍ 15. apríl 2015 og samþykkt samhljóða.