Stuðningsyfirlýsing
Stjórn félags leikstjóra á Íslandi lýsir yfir stuðningi við kjarabaráttu leikara í samningum við Leikfélag Reykjavíkur. Tryggja verður að kjör starfandi listamanna í faginu séu boðleg og í samræmi við þau verðmæti sem þeir skapa og því raunverulega vinnuálagi sem störfum þeirra fylgir.

Unnur Ösp Stefánsdóttir útskrifaðist frá leiklistardeild Listaháskóla Íslands árið 2002 og hefur síðan þá starfað við leikhús og kvikmyndir, sem framleiðandi, leikari og leikstjóri.
Í Borgarleikhúsinu leikstýrði hún Fólkinu í blokkinni, Footloose og MAMMA MIA! og Kæru Jelenu en þar að auki fór hún með hlutverk í sýningunum Eldhaf, Elsku barn, Faust, Nei, ráðherra!, Núna, Fjölskyldan, Dúfurnar, Grease, Er ekki nóg að elska?, Dúkkuheimili, Njála og Dúkkuheimili-annar hluti.
Í Þjóðleikhúsinu lék Unnur í sýningunum Klaufar og kóngsdætur, Edith Piaf, Halldór í Hollywood og Eldhús eftir máli. Hún lék í sjónvarpsseríunni Rétti, í kvikmyndinni Dís, söngleiknum Hárinu, Hamskiptunum, Killer Joe og í Herra Kolbert.
Hún lék í Ófærð 2 og Ráðherranum fyrir Rvk Studios, Saga film og Rúv. Unnur hefur leikið Gretu í Hamskiptum Vesturports í Ástralíu, Englandi og Kananda Svo lék hún Gretu í FaustVesturports í Englandi, Þýskalandi og Kóreu.
Unnur fékk Grímuna sem besta leikkona í aðalhlutverki árið 2011 fyrir hlutverk sitt í Elsku barn og aftur árið 2015 fyrir hlutverk sitt í Dúkkuheimili, auk þess sem hún var tilnefnd til Grímunnar fyrir leikstjórn í MAMMA MIA! og sem besta aðalleikkonan fyrir hlutverk sín í Killer Joe, Eldhafi, Brot úr hjónabandi og Dúkkuheimili annar hluti. Unnur var valin besta leikkona í aðalhlutverki á kvikmyndahátíðinni Bushofilm festival fyrir leik sinn í stuttmyndinni Frelsun 2018 og hlaut Stefaníustjakann árið 2012. Unnur framleiddi, skrifaði og lék í sjónvarpsþáttaröðinni Fangar sem hlaut 10 Edduverðlaun 2018.
Unnur lék í Ófærð 2 og hlaut fyrir það tilnefningu sem besta leikkona í aukahlutverki á Edduverðlaunum 2020. Hún skrifaði leikgerð að og leikstýrði Vertu úlfur í Þjóðleikhúsinu 2021 og hlaut sýningin sjö Grímuverðlaun 2021 þar sem Unnur var valin leikstjóri og höfundur ársins.
Unnur var valin bæjarlistamaður Garðabæjar ásamt eiginmanni sínum 2021.